Skip to main content Skip to footer

Wise kaupir CoreData Solutions

Wise hefur gengið frá kaupum á hugbúnaðarfyrirtækinu CoreData Solutions sem þróar og selur stafrænar lausnir á borð við CoreData ECM, en það er málaskrár-, verkefnastjórnunar- og skjalakerfi. Aðrar helstu vörur CoreData eru Gagnaherbergi, Stjórnarvefgátt, Samningakerfi, Umsóknarkerfi, Rafræn skil til Þjóðskjalasafns Íslands og samþætting við rafrænar undirritanir.

Markmið CoreData er að skapa hina fullkomnu stafrænu skrifstofu þar sem gögn eru örugg og aðgengileg hvaðan- og hvenær sem er. Það styður vel við viðskiptavini sem þurfa að leysa þá áskorun sem „störf án staðsetningar“ skapa. Viðskiptavinir CoreData eru meðal annars fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir, heilsustofnanir, menntastofnanir og ýmis rekstrarfélög.

Wise hefur verið í rekstri í yfir 26 ár og selur og þjónustar viðskiptahugbúnað frá Microsoft Dynamics 365 Business Central, Power BI, Office365 og TEAMS ásamt því að bjóða eigin sérlausnir. Viðskiptavinir Wise, telja nú um eitt þúsund og spanna flestar atvinnugreinar eins og sveitarfélög, sjávarútvegs-, fjármála- og framleiðslufyrirtæki ásamt verslunum og fyrirtækjum í ýmis konar sérfræðiþjónustu. Vara Wise fyrir sjávarútveg, Wisefish, hefur náð góðri fótfestu á erlendum mörkuðum og er nú notuð í 25 löndum. Fjárfestingafélagið Adira er stærsti hluthafi Wise. Adira er með ýmsar fjárfestingar á Íslandi og er meðal annars eigandi Nespresso á Íslandi.

Með kaupunum á CoreData bætir Wise vöru- og þjónustuframboð sitt og með lausnum CoreData uppfyllir Wise enn frekar þarfir viðskiptavina sinna á sviði stafrænna lausna. Hjá CoreData Solutions starfa nú 12 manns, þar af 5 á Íslandi. Starfsmenn félagsins hafa öll langa og umfangsmikla reynslu á sviði skjalamála og upplýsingatækni. Flaggskipið CoreDate ECM hefur verið í notkun síðan árið 2009 og mikil reynsla og þróun verið á vörunni sl. 13 ár. Lausnin  var hönnuð og þróuð sem málaskráarkerfi samkvæmt stöðlum Þjóðskjalasafns Íslands um varðveislu skjala og uppfyllir því ríkustu kröfur um öryggi.

Jóhannes Helgi Guðjónsson forstjóri Wise fagnar kaupunum á CoreData: “ Markmið Wise hefur verið að bæði þétta og breikka framboð okkar lausna og geta þannig veitt viðskiptavinum heildstæðar lausnir og stutt þá í að ná sem mestum árangri í sinni stafrænu vegferð.  Tækifæri Wise felst í því að hlusta á viðskiptavini okkar, skilja þeirra áskoranir og bjóða lausnir sem hjálpa þeim að ná árangri. Vörur CoreData eru öflug viðbót við vöru- og þjónustuframboð Wise.

Gunnar Ingi Traustason framkvæmdastjóri CoreData: „Við erum gríðarlega stolt af þeim vörum og þeirri þjónustu sem við höfum verið að veita. Lausnir okkar hafa verið í fararbroddi í því að gera fyrirtækjum kleift að starfrækja stafræna skrifstofu sem hefur stutt þau á þessum skrítnu Covid tímum ásamt því að auka sjálfsafgreiðslu viðskiptavina þeirra og minnka þannig kolefnisfótspor og pappírsnotkun. Viðskiptavinir okkar hafa verið mjög ánægðir með þau gæði, stöðugleika og öryggi sem kerfið hefur haft uppá að bjóða. Það vöruframboð sem við höfum fram að bjóða hjá CoreData Solutions mun breikka það frábæra lausnamengi sem Wise býður upp á í dag. Saman verðum við mjög sterkt afl sem nær að leysa enn betur þær áskoranir sem viðskiptavinir okkar standa frammi fyrir.“

Tengjumst

Við skoðum þetta saman

Ertu með fyrirspurn eða ábendingu til okkar?
Endilega sendu okkur línu og við leysum málið.