Inga Birna Ragnarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri markaðssviðs hjá Wise og er staðan ný innan fyrirtækisins. Mun hún bera ábyrgð á markaðssetningu og vörumerkjum Wise og taka þátt í stefnumótun fyrirtækisins.
Wise er einn stærsti söluaðili Microsoft Dynamics 365 lausna á Íslandi og er í fararbroddi í upplýsingatækni með áherslu á bókhald, ráðgjöf, hugbúnaðargerð og innleiðingar ásamt öflugri og persónulegri þjónustu. Wise býður heildarlausnir fyrir fyrirtæki þar sem tækni og fjármál fyrirtækja eru endurskoðuð í heild sinni.
Inga Birna hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, markaðssetningu, verkefnastjórnun, þróun og innleiðingu stafrænna lausna sem og stafrænni umbreytingu stórra fyrirtækja í sínum störfum, nú síðast sem framkvæmdastjóri Kosmos og Kaos. Þar á undan gegndi hún stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs WOW air og síðar stöðu aðstoðarforstjóra flugfélagsins til ársins 2014. Áður var Inga hjá Icelandair Group í yfir áratug þar sem hún stýrði meðal annars uppbyggingu vildarkerfis Icelandair sem forstöðumaður þess sviðs og sem markaðsstjóri Flugfélags Íslands. Inga lauk MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2006 og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1999. Hún er í sambúð með Hrafni Árnasyni, forstöðumanni hjá Íslenskum verðbréfum og saman eiga þau 3 börn.
Jóhannes Helgi Guðjónsson forstjóri Wise: „ Það er mikill styrkur fyrir Wise að fá Ingu Birnu til að leiða Markaðsmál Wise í þeim fjölbreyttu verkefnum sem framundan eru og mun víðtæk reynsla hennar koma okkur til góða. Vöru og þjónustuframboð okkar hefur aukist með sameiningu við Centara og Clarito sem og með samstarfi við LS Retail og fleiri birgja. Wise hefur alltaf lagt mikla áhersla á að bjóða íslenskum viðskiptavinum sínum framúrskarandi lausnir og munum við að sjálfsögðu halda áfram á þeirri braut ásamt því að sækja á erlenda markaði en Wise selur nú þegar vörur sínar til yfir 25 landa.“
„Wise er gríðarlega spennandi og traust fyrirtæki í mikilli sókn. Framtíðin er björt og við horfum fram á mikil vaxtartækifæri í tækniþróun og sérstaklega í þeirri stökkbreytingu sem er hafin í stafrænum lausnum og nýtingu þeirra. Ég er mjög stolt að bætast í hóp öflugra starfsmanna Wise og er full tilhlökkunar fyrir þeirri vegferð sem framundan er hjá fyrirtækinu„ segir Inga Birna.