Óskar Guðjón Karlsson hugbúnaðarsérfræðingur hjá Wise
Í dag eru flestir Íslendingar með ökuskírteinið, greiðslukortin og jafnvel staðfestingu á bólusetningu í símunum sínum. Þá er verið að notast við svokallaðar veskislausnir eða snjallveski (e. digital wallet) til þess að geyma stafræna útgáfu þessara korta eða skilríkja.
Veskislausnin sem hver og einn er með uppsetta í símanum ræðst af tveimur þáttum, staðsetningu og hvernig síma þú notar. Ef einstaklingur notar iPhone þá er hann að öllum líkindum með Apple Wallet sem fylgir uppsett með símanum þínum. Inn í Apple Wallet getur þú m.a. geymt greiðslukortin þín og virkt þau fyrir Apple Pay, sem er greiðslulausn Apple.
Stærstu veskislausnirnar fyrir Android síma eru Google Pay og Samsung Pay en á Íslandi eru þessar þjónustur því miður ekki aðgengilegar. Aftur á móti þá bjóða bankarnir notendunum sínum að nota greiðslukortin í símanum í gegnum þeirra smáforrit. Þegar kemur að veskislausnum þá eru nokkrir möguleikar í boði. Island.is mælir með því að nota SmartWallet til þess að geyma stafræna útgáfu af ökuskírteininu.
Öryggismálin
Hvort sem þú notar iPhone eða Android síma þá er það nokkuð öruggt að borga með símanum.
Ef greiðsla er framkvæmd með Apple Pay þá er kortanúmerið þitt hvorki vistað á tækinu þínu né netþjónum Apple og greiðsluupplýsingum er ekki deilt með seljendum (seljanda). Í stuttu máli þá er ekki hægt að rekja neinar upplýsingar aftur til þín.
Fyrir Android þá eru bankarnir hér á landi með sína eigin lausn en hún virkar með svipuðum hætti og Apple Pay – smáforrit bankanna geyma engar greiðsluupplýsingar um notendur og deila þ.a.l. ekki með neinum.
Í stóra samhenginu þá eru veskislausnir ekki minna öruggar en gömlu hefðbundnu veskin. Ef óprúttinn aðili kemst yfir síma í leyfisleysi þá þarf hann samt sem áður að giska á PIN númer og/eða komast í gegnum fingrafara- eða andlitsskanna til að geta notað kortin sem tilheyra veskislausninni.
Stafrænt aðgangskort fyrir sundlaugar
Wise er búið að gangsetja stafræn aðgangskort fyrir sundlaugina Laugaskarð í Hveragerði. Markmið verkefnisins var að þróa notendavæna og fallega lausn sem myndi gefa sundlaugargestum möguleika á því að skilja veskið eftir heima.
Á www.laugaskard.is geta notendur verslað skiptakort og tímabilskort. Möguleikarnir eru 1, 10 eða 30 miðar og 6 mánaða eða árskort. Að greiðsluferlinu loknu geta kaupendur bætt sundkortinu eða miðanum í þá veskislausn sem er uppsett í snjallsímanum þeirra og notað það til að komast inn í sundlaugina í Laugaskarði. Þeir gera það með því að bera QR-kóðann upp að skanna sem veitir síðan kaupendum inngöngu ef kortið er gilt.
Stafræna sundkortið sparar sundiðkendum í Hveragerði og nágrenni að þurfa muna alltaf eftir sundkortinu, einnig sparar sundkortið starfsmönnum sundlaugarinnar afgreiðslustörf.
Framtíðin í veskislausnum
Mörg hótel, flugfélög, verslunarkeðjur, íþróttafélög og bæjarfélög hafa áttað sig á tækifærunum sem felast í veskislausnunum. Hvort sem það eru herbergiskort, flugmiðar, miðar inn á viðburði eða í samgöngur þá bendir flest til þess að notkun stafrænna korta munu aukast hratt í komandi framtíð.
Markmið tækninnar er að auðvelda okkur lífið og þegar öllu er á botninn hvolft þá kjósa fáir að ganga um með troðfullt veski ef það er bara hægt að hafa þetta í símanum.