Skip to main content Skip to footer

Elín Málmfríður Magnúsdóttir nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Wise

Elín Málmfríður Magnúsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Wise og tekur hún við af Gunnari Birni Gunnarssyni. Hlut­verk framkvæmdastjóra fjármálasviðs verður meðal ann­ars að halda utan um og styðja við upp­bygg­ingu fé­lags­ins og stefnumótun, móta og fylgja eft­ir fjár­hags­áætl­un ásamt verk­efn­um tengd­um dag­legri fjár­mála­stjórn og fjármögnun félagsins.


Elín er með BSc. gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst og hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, ráðgjöf og verkefnastjórnun. Undanfarin ár hefur hún starfað sem fjármálastjóri Vaka fiskeldiskerfa á Íslandi og samfara því séð um fjármálastjórn í dótturfélögum þess í Noregi, Chile og Skotlandi. Þar áður kom hún að stofnun M7 ráðgjöf þar sem hún vann sem fjárhagsráðgjafi. Elín bjó með fjölskyldu sinni í Danmörku í tæp 10 ár þar sem hún vann sem Viðskiptastjóri (e. Business Controller) hjá Eurofins NSC A/S.  Þar hafði hún ásamt hópi sérfræðinga yfirumsjón með fjármálastjórn fyrirtækja Eurofins í Danmörku og Finnlandi. Elín er gift Sveini Snorra Magnússyni sérfræðingi hjá Gagnaveitu Reykjavíkur og saman eiga þau 3 börn.

Jóhannes Helgi Guðjónsson forstjóri Wise: „Það er mikill styrkur fyrir Wise að fá Elínu til liðs við Wise. Hún hefur ekki aðeins gríðarlega reynslu af rekstri fyrirtækja sem fjármálastjóri heldur hefur hún einnig starfað sem ráðgjafi og þekkir því vel til eðli starfseminnar. Wise hefur vaxið hratt með breikkun vöru- og þjónustuframboðs og leggur sem fyrr mikla áherslu á faglega og persónulega þjónustu við fyrirtæki af öllum stærðargráðum.“

„Wise er í miklum vexti, heimsmyndin er í sífelldri þróun og við erum í miðri umbyltingu á tækniþróun og sérstaklega það sem snýr að stafrænum lausnum og nýtingu þeirra. Þar ætlum við að vera leiðandi með okkar vörur, aðstoða viðskiptavini okkar til að vera sjálfbærari og grænni og við að taka betri ákvarðanir svo þeir nái hámarks arðsemi og hagræðingu úr sínum rekstri. Framtíðin er björt hjá Wise og er ég mjög spennt að fá að taka þátt í þessu ævintýri og bætast í hóp öflugra starfsmanna fyrirtækisins“ segir Elín Málmfríður.

Wise er einn öflugasti söluaðili Microsoft Dynamics 365 Business Central bókhalds- og viðskiptahugbúnaðinum ásamt sérlausnum fyrir íslenskan markað og hefur m.a. sérhæft sig í lausnum á sviði fjármála, verslunar, sérfræðiþjónustu, sveitarfélaga og sjávarútvegslausna með Wisefish lausninni sem er nú notuð í yfir 25 löndum. Wise býður úrval lausna sem byggja á þeirri hugmyndafræði að gera fyrirtækjum kleift að taka betri viðskiptaákvarðanir á grundvelli góðra upplýsinga og vel skipulagðra gagna í okkar stafræna heimi.

Tengjumst

Við skoðum þetta saman

Ertu með fyrirspurn eða ábendingu til okkar?
Endilega sendu okkur línu og við leysum málið.