Þekktur alþjóðlegur netglæpahópur hefur gert netárás á hluta kerfa Wise og tekið afrit af gögnum. Árásin hefur þó ekki haft áhrif á rekstur eða þjónustu Wise. Ljóst er að um alvarlega árás er að ræða og eru viðbrögð Wise í samræmi við það.
Þegar vart varð við árásina var öryggisáætlun virkjuð og hefur fyrirtækið unnið að því að tryggja öryggi og draga úr áhrifum árásarinnar í samræmi við hana. Kallaðir hafa verið til helstu sérfræðingar frá netöryggisfyrirtækinu Syndis sem hafa aðstoðað við að afla upplýsinga um umfang árásarinnar, greina stöðu og tryggja varnir gegn frekari árásum.
Wise hefur þegar greint Persónuvernd frá árásinni í samræmi við reglur og við erum að vinna í að upplýsa þá viðskiptavini sem málið snertir um atvikið. Þá er athygli vakin á því að árásin snertir ekki rekstrarþjónustu Wise (áður Þekking).
Glæpahópurinn hefur að undanförnu gert árásir á stórfyrirtæki og stjórnvöld víða um heim og notar þær aðferðir sem erfiðast er að verjast, sem er að fara í gegnum einstaka notendur.
Wise er vottað samkvæmt alþjóðlegum öryggisstöðlum og vinnur að því að tryggja umhverfi sitt gegn frekari árásum. Wise mun hafa gagnsæi að leiðarljósi og er frekari upplýsinga að vænta um leið og þær liggja fyrir.
Viðbót 23. desember 2024
Leiðbeiningar fyrir viðskiptavini varðandi endursetningu lykilorða
Sem öryggisráðstöfun hvetjum við alla viðskiptavini til að skipta um lykilorð notenda og virkja tveggja þátta auðkenningu ef hún er ekki nú þegar virk.
Tengjumst
Við skoðum þetta saman